Áhættustjórnun

Á þessari síðu verður fjallað um áhættustjórnun frá mismunandi sjónarhorni.

Hugsanlegt eldgos á Reykjanesskaga

Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra ákvað hinn 26. janúar 2020 að lýsa fyrir óvissustigi vegna þróunar sem gæti leitt til eldgoss nálægt Grindavík. Það höfðu verið talsvert af jarðskjálftum daga á undan og auk þess hafði mælst um 20 mm landris á örfáum dögum. Seint verður sagt að möguleiki á eldgosi á þessu svæði eða bara á Reykjanesskaga öllum, sé eitthvað sem ætti að koma á óvart. Vel þekkt er í jarðsögu Íslands að þarna verða eldgos sem ganga í lotum með nokkuð jöfnu millibili. Ástæðan er gliðnun landsins, sem þarna stendur á flekamótum Evróasíuflekans og Norður-Ameríkuflekans. Einhvern tímann í framtíðinni er talið að svæðið frá Reykjanestá til Kollafjarðar muni rifna frá öðrum hluta landsins og mynda eyju sem mun síðan líklegast sökkva í sæ. Eða hvort skagi rifni frá Krísuvík. Fyrstu ummerki þeirrar þróunar sést í Hjöllunum í Heiðmörk, þar sem myndast hefur mikill sigdalur á bara nokkur þúsund árum.

Ég ætla að láta jarðfræðingana um að meta hvar gæti gosið og hver gætu orðið bein áhrif af gosinu (hvort heldur í formi hraunrennslis eða útstreymis gastegunda). Hér ætla ég að beina sjónum að veitufyrirtækjum og samgöngum. Tekið skal fram, að ég gerði gróft áhættumat á sumu af því sem ég fjalla hér um, í kringum 2003, þegar ég framkvæmdi öryggisúttekt á rekstri Schengen-upplýsingakerfisins. Þó það áhættumat sé ekki lengur í mínum fórum, enda hætti ég að vinna fyrir vinnuveitandann minn á þeim tíma fyrir rúmum 15 árum, þá hef ég oft rifjað þessar athuganir mínar upp á þeim árum sem liðin eru og bætt við þekkingu.

Verði af gosi á svæðinu norður og norð-austur af Grindavík, þá mun líklegast skapast neyðarástand á öllum vestanverðum Reykjanesskaga. Helgast það af tvennu: Byggðin á svæðinu fær heitt vatn frá Svartsengi og neysluvatn frá gjá í Lágum.

Lágar eru í jaðri gamals hrauns sem líklegast tilheyrir dyngjunni Sandfellshæð, en hún myndaðist fyrir um 13.000 árum. Allt í kring er hins vegar yngra hraun og það yngsta frá 13. öld. Ómögulegt er að vita hvort eldsumbrot á svæðinu myndu ná til vatnsbólsins, en hugsanlega verður það eigi að síður ónothæft til neyslu vegna mengunar. Brýnasta verkefni ætti því að vera að finna nýtt vatnsból fyrir þá á Reykjanesskaga, sem fá vatn frá HS veitum, sem eru byggðalögin í Grindavík, Reykjanesbæ, Suðurnesja og á flugverndarsvæðinu. Þetta vatnsból þarf að vera nógu öflugt til að hægt sé að nota það líka fyrir heitt vatn hvort heldur neysluvatn eða til húshitunar.

Svartsengi er undir Þorbirni og því á miðju svæðinu, þar sem landrisið er mest. Þó svo að ekki gjósi ofan í orkuverinu, þá er líklegt að sprungur, sem opnast, myndu taka lagnir í sundur. Einnig gæti hitinn í holum hækkað það mikið, að þær væri ekki hægt að nýta. En það er ekki nóg. Heita vatnið frá Svartsengi er upphitað vatn frá Lágum. Fáist ekki vatn frá vatnsbólinu í Lágum, þá er tómt mál að tala um heitt vatn, þó svo að Svartsengi og veitulagnirnar þaðan og yfir í Fitjar myndu sleppa. Gera þarf því ráð fyrir að ekki verði hægt að leggja notendum til heitt vatn frá Svartsengi. Kostirnir væru að kynda vatn með rafmagni eða fá það annars staðar frá. Til að kynda vatnið með rafmagni þarf líklega nokkuð öfluga kyndistöð.

Heppilegast væri að gossprungan opnaðist það norðarlega, að vatnslagnir til og frá Svartengi og frá Lágum myndu haldast heilar. Þessar lagnir geta samt farið í sundur, þó ekki gjósi.

Þá er það rafmagnið. Grindavík fær rafmagn frá Svartsengi. Meðan að orkuverið helst gangandi verður hægt að sjá fyrir þörfum bæjarins. Detti Svartsengi út, þá er líklegt að grípa þurfi til díselstöðva(r) nema búið verði að koma á tengingu úr Reykjanesvirkjun yfir til Grindavíkur. Veit ég ekkert hvort það er mögulegt. Hvað önnur sveitarfélög á svæðinu, þá fá þau rafmagn frá landskerfinu um Suðurnesjalínu 1 í kerfi Landsnets. Sú lína liggur meðfram Reykjanesbraut og því nokkuð í burtu frá líklegu umbrotasvæði og ætti að sleppa nema hraunrennslið verði þess meira eða sprungurnar þess lengri. Landsnet fær einnig raforku frá Reykjanesvirkjun um Rauðamelslínu 1, en hún gæti hugsanlega lent innan gossvæðisins, þar sem fer fram hjá Lágum og Þórðarfelli. Línan liggur hins vegar að mestu leyti á dyngjunni Sandfellshæð og bíður því sömu örlaga og neysluvatnsbólið í Lágum.

Hvað varðar umferð, þá gildir sama um Reykjanesbraut og Suðurnesjalínu 1. Hún ætti að sleppa. Það þýðir líka að fjarskiptalagnir (og þar með netlagnir) ættu að sleppa. Fari hins vegar allt á versta veg, þá þarf bæði að styrkja raforkuafhendingu inn á svæðið og tryggja samgöngur með öðrum hætti. Hvað þetta varðar, þá beini ég sjónum til sjávar. Landsnet hefur lengi verið að velta fyrir sér Suðurnesjalínu 2 og er núverandi staða hennar, að fara þarf í nýtt umhverfismat. Einnig hafnaði dómstóll að Landsnet gæti fengið heimild til eignarnáms. Ég hef oft spurt hvers vegna Landsnet horfi ekki til þess að leggja sæstreng frá Straumsvík til Helguvíkur. Slíkur strengu myndi alfarið fara framhjá umbrotasvæðinu á Reykjanesskaga (nema verulega breytingar yrðu á umbrotunum og þau færðust út í sjó norðan skagans). Gæti yrði samt að því að leggja strenginn nægilega langt út, því dæmi eru um að hraun hafi runnið nokkuð langt út í sjó.

Samgöngur milli Hafnarfjarðar og sveitarfélaganna vestar á skaganum gætu raskast tímabundið. Þó varla í langan tíma í senn, því hægt væri að riðja veginn ekkert svo mörgum dögum eftir að hrauntaumar hafa runnið yfir hann. Spurningin er hins vegar hvort það væri talið boðlegt og áhættunnar virði. Lausnin væru ferjusiglingar milli Hafnarfjarðar og Helguvíkur.

Loks er það flugið. Sé miðað við svæðið sem fór undir hraun á 13. öld, þá er ekki hægt að sjá, að flug þyrfti að verða fyrir svo mikilli truflun. Það fer þó allt eftir því hvar gossprungur myndu opnast. Tvær flugbrautir af þremur og önnur áttin af tveimur fyrir þá þriðju sleppa alveg og hin áttin ætti að sleppa nema sprungur opnist þess vestar á Reykjanesskaga. Í aðalskipulagi Keflavíkurflugvallar eru síðan tillögur að fleiri flugbrautum, þó ekki myndu þær allar sleppa við áhrif af hugsanlegu gosi norðan Grindavíkur, væru þær til staða. Hvort það sé nóg til að flug haldist að mestu ótruflað, læt ég sérfræðingum um flugöryggismál um að dæma. Sé hins vegar að fara í hönd umbrotahrina á Reykjanesskaga, þá held ég að menn ættu að halda að sér höndum varðandi annan flugvöll á skaganum, þar til ljóst verður hvernig mál þróast.

Marino G Njalsson